Framhald sjónvarpsþáttaraðarinnar The L Word er nú í bígerð en samkvæmt heimildum Variety hefur sjónvarpsstöðin Showtime hafið undirbúning á framleiðslu nýrra þátta.
Nýju þættirnir yrðu framhald af þeim gömlu, sem sýndir voru á árunum 2004-2009, og til umfjöllunar verða nýjar persónur. Þó er talið að aðalleikkonur upprunalegu þáttaraðarinnar snúi aftur, bæði á skjánum í sínum gömlu hlutverkum og í hlutverki framleiðenda.
The L Word fjallaði um hóp samkynhneigðra kvenna búsettra í Los Angeles í Kaliforníu. Þættirnir hlutu mikið lof gagnrýnenda og mannréttindasamtaka fyrir að vinna brautryðjandi starf í þágu hinseginfólks í skemmtanaiðnaðinum.
Showtime leitar nú að handritshöfundum og framleiðendum sem hafa beinar tengingar inn í samfélag samkynhneigðra kvenna. Þá er gert ráð fyrir að höfundur The L Word, Ilene Chaiken, komi einnig að nýju framleiðslunni.
