Innlent

"Hefði viljað vera laus við að fá yfirmann frá helvíti“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Adolf Ingi Erlingsson starfaði hjá RÚV í 22 ár. Hann var rekinn árið 2013 og höfðaði í kjölfarið mál vegna eineltis sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns. Hér er hann að störfum á EM í handbolta í Austurríki árið 2010.
Adolf Ingi Erlingsson starfaði hjá RÚV í 22 ár. Hann var rekinn árið 2013 og höfðaði í kjölfarið mál vegna eineltis sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns. Hér er hann að störfum á EM í handbolta í Austurríki árið 2010. vísir
Adolf Ingi Erlingsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður á RÚV, kveðst vera ánægður með að hafa unnið mál sem hann höfðaði gegn sínum gamla vinnustað vegna eineltis sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanns síns, Kristínar H. Hálfdánardóttur. Kristín tók til starfa sem íþróttastjóri RÚV vorið 2009 og  en Adolf var sagt upp störfum í nóvember 2013.

Kristín Harpa Hálfdánardóttir, fyrrverandi íþróttastjóri RÚV.
RÚV var dæmt til að greiða Adolf 2,2 milljónir króna í skaðabætur auk málskostnaðar í Héraðsdómi Reykjavíkur núna í hádeginu en Adolf var í fríi norður í landi þegar Vísir náði af tali af honum og hafði því ekki náð að kynna sér forsendur dómsins. Þá hefur dómurinn ekki verið birtur á vef dómstólanna en Vísir hefur dóminn undir höndum.

Þar kemur fram að RÚV skuli greiða Adolf 500 þúsund krónur í skaðabætur vegna eineltis, 500 þúsund krónur vegna ólögmætrar uppsagnar og 1,2 milljónir króna vegna þess fjártjóns sem Adolf varð fyrir vegna starfsmissisins.

 

Margt sem Adolf hefði frekar viljað

Aðspurður hvernig honum liði nú þegar niðurstaða væri komin í málið sagði hann að þó að hann hefði að sjálfsögðu frekar viljað vinna málið en tapa því þá væri svo margt sem hann hefði frekar viljað.

„Í fyrsta lagi hefði ég viljað vera laus við að fá yfirmann frá helvíti. Í öðru lagi hefði ég viljað að þáverandi yfirstjórn fyrirtækisins hefði haft manndóm í sér til að taka á þessu máli sem blasti við þeim. Í þriðja lagi hefði ég líka viljað að það hefði verið einhver innistæða fyrir orðum núverandi útvarpsstjóra þegar hann sagði að hann vildi ná sáttum í málinu,“ segir Adolf í samtali við Vísi.

Hann kveðst hafa átt í viðræðum við Magnús Geir Þórðarson, núverandi útvarpsstjóra, um að ná sátt í málinu en í janúar 2014 var tilkynnt um ráðningu Magnúsar í starf útvarpsstjóra.

Adolf Ingi kveðst hafa átt í viðræðum við Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra, um að ná sáttum í málinu en hann telji að það hafi verið orðin tóm.Vísir
Segir engan sáttavilja hafa verið hjá Magnúsi Geir

„Við áttum í viðræðum í nokkra mánuði þar sem hann lýsti yfir miklum vilja til þess að ná sáttum og ég var ásamt mínum lögfræðingi í viðræðum við hann og aðra í þó nokkurn tíma. Svo kom í ljós að þetta voru bara tóm orð og það var enginn vilji til að ná sáttum. Þannig að því miður varð ég að fara þessa leið og að sjálfsögðu er ég ánægður með að hafa unnið málið en ekki tapað því,“ segir Adolf.

Hann segir málið hafa tekið á enda hefur það tekið langan tíma, og að hans mati alltof langan tíma, en meðferð þess fyrir dómstólum frestaðist til að mynda um níu mánuði þar sem dómarinn, Kjartan Bjarni Björgvinsson, fór til starfa hjá rannsóknarnefnd Alþingis vegna aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að einkavæðingu Búnaðarbankans.

Í dómi héraðsdóms er ekki fallist á það með Adolf að sú háttsemi Kristínar að fela öðrum en honum að lýsa íþróttaleikjum og færa hann til á starfsstöð hafi falið í sér einelti.

Hins vegar er fallist á það að það hafi falið í sér einelti af hálfu Kristínar að fella niður vaktaálagsgreiðslur til hans, þvert á munnlegt samkomulag þeirra á milli um að hann skyldi halda þeim kjörum þrátt fyrir að hann tæki að sér önnur verkefni innan RÚV.

Adolf kvartaði undan einelti Kristínar við Óðinn Jónsson sem var þá fréttastjóri á RÚV.
Háttsemi sem var til þess fallin að gera lítið úr Adolf

Þá hafi það jafnframt falið í sér einelti að Óðinn Jónsson, þáverandi fréttastjóri, og Berglind Bergþórsdóttir, þáverandi mannauðsstjóri, gerðu Adolf að undirrita minnisblað þar sem hann samþykkti að bæta úr tilteknum ávirðingum sem Kristín hafði borið á hann.

Áður hafði Adolf kvartað yfir einelti Kristínar við Óðin sem sendi þá kvörtun áfram á Berglindi. Í dómnum kemur fram Óðinn og Berglind hafi gert honum að undirrita minnisblaðið án þess að kanna „frekar sannleiksgildi eða efnislegar forsendur þeirra ávirðinga sem Kristín bar á hann, svo og umkvartana hans um einelti, áður en þau afhentu honum minnisblað til undirritunar um atriði sem hann þyrfti að bæta.

Að sama skapi verður ekki séð að þáverandi mannauðsstjóri og fréttastjóri RÚV ohf. hafi leitað upplýsinga frá öðrum um ástæður og orsakir samstarfsörðugleika Kristínar og Adolfs Inga,“ eins og segir í dómi héraðsdóms.

Telur dómurinn að þessi framganga þremenninganna hafi verið til þess fallin að gera lítið úr honum og falli því undir skilgreiningu eineltis.

Þá kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að uppsögn Adolfs Inga hafi verið ólögmæt þar sem RÚV hafi ekki sýnt fram á að málefnalegar ástæður hafi legið að baki því að segja honum upp.


Tengdar fréttir

RÚV þarf að borga Adolf Inga bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun Ríkisútvarpið til að greiða fyrrverandi íþróttafréttamanninum, Adolfi Inga Erlingssyni, 2,2 milljónir í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×