„Það er eigin tónlist sem ég ætla að leika,“ upplýsir hann. „Ég hef samið talsvert undanfarin ár, einkum fyrir nútímasirkus, danssýningar og leikhús. Sumir segja þá tónlist undir áhrifum af franskri harmóníkutónlist og argentínskum tangó, hún verður í fyrri hluta dagskrárinnar og í síðari hlutanum eru lög sem tengjast mínu heimasvæði, Lapplandi.“
Tatu býr í borginni Rovaniemi, rétt norðan við heimskautsbaug.
„Rovaniemi er jólasveinabær með í kringum 30-40 þúsund íbúa. Skógur er alls staðar í kring og litlir bæir líka. Ég kenni í tónlistarskóla, spila í sirkus, leikhúsi og víðar þar sem vantar tónlist,“ lýsir hann glaðlega.
Tatu kom með nýjan tón í harmóníkumenninguna á Íslandi, hélt tónleika um allt land, lék með íslenskum tónlistarmönnum og kenndi í skólum. Var í hljómsveitinni Rússíbönum og lék í leikhúsum, meðal annars í Sjálfstæðu fólki, Cyrano og Édith Piaf í Þjóðleikhúsinu. Skyldi harmóníkan vera sterk í Finnlandi?
„Það eru margir sem spila á harmóníku ég get samt ekki sagt að hún sé vinsælt hljóðfæri í dag, en hún var það, eins og á Íslandi,“ svarar Tatu sem talar svo góða íslensku að maður gleymir strax að hann sé útlendingur. „Ég var rúm tólf ár á Íslandi, svo ég hafði góðan tíma til að læra,“ segir hann.
Tatu kveðst hafa lært á harmóníku í tvö ár í Hannover en þá verið búinn að læra í fimmtán ár heima.

Ég ætla að reyna að vinna við ljósmyndun í framtíðinni. En allt gengur í bylgjum og um leið og ég var búinn að læra fagið varð fullt að gera í músíkinni, því hef ég ekki haft mikinn tíma til að sinna myndatökum. En það er gott að hafa kunnáttuna.“