Frumorsakir þeirra loftslagsbreytinga sem nú eiga sér stað á jörðinni eru vel þekktar. Gróðurhúsalofttegundir, fyrst og fremst koltvísýringur, sem menn losa með bruna á jarðefnaeldsneyti valda þeirri hlýnun sem hefur átt sér stað frá því á síðustu öld.
Perry sagði hins vegar við CNBC-sjónvarpsstöðina að hann teldi að hafið og umhverfið yllu loftslagsbreytingum. Þá sagði hann það væri í góðu lagi að efast um sum atriði loftslagsvísinda.
Sjá einnig:Orkumálaráðherra Trump hafnar því að menn beri ábyrgð á hlýnun jarðar
Í bréfi Keith L. Seitter, framkvæmdastjóra AMS, til Perry segir hann að það sé lykilatriði að ráðherrann skilji að koltvísýringur og aðrar gróðurhúsalofttegundir séu aðalorsakavaldar hnattrænnar hlýnunar. Annars geti orkumálaráðuneytið ekki mótað stefnu á skilvirkan hátt.
„Þetta er niðurstaða sem byggist á yfirgripsmiklu mati á vísindalegum sönnunum. Hún byggist á fjölda sjálfstæðra vísbendinga sem þúsundir sjálfstæðra vísindamanna og fjöldi vísindastofnana um allan heim hafa staðfest. Við könnumst ekki við neina vísindastofnun með viðeigandi sérþekkingu á málinu sem hefur komist að annarri niðurstöðu,“ segir AMS.

Veðurfræðingarnir taka undir með Perry um efasemdir og segja að þær séu framgangi vísinda lífsnauðsynlegar.
Ýmsum spurningum innan loftslagsvísinda sé enn ósvarað en aðrar niðurstöður byggi hins vegar á áratugalöngum athugunum og fjölda sjálfstæðra vísbendinga
„Efasemdir sem taka ekki tillit til staðreynda eru ekki dyggð,“ segir í bréfi framkvæmdastjóra AMS.
Það hafi verið staðfest kirfilega að koltvísýringur og gróðurhúsalofftegundir almennt séu aðalorsakavaldur loftslagsbreytinga.
The @ametsoc sent a letter to @SecretaryPerry basically saying he lacks "a fundamental understanding of the science" of climate change pic.twitter.com/c3hRMnByMN
— Brian L Kahn (@blkahn) June 21, 2017