Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðum flutningi bandaríska sendiráðsins frá Tel Aviv til Jerúsalem.
Frá þessu greinir AFP og hefur eftir ónafngreindum bandarískum embættismanni. Sá leggi hins vegar áherslu á að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær, bandarísk stjórnvöld komi til með að flytja sendiráð sitt til Jerúsalem.
Ekkert þeirra um áttatíu ríkja sem eru með sendiráð í Ísrael eru með þau í Jerúsalem af ótta við að fólk myndi líta á sendiráð í Jerúsalem sem viðurkenningu á landtökusvæðum Ísraela.
Að sögn AFP hefur Trump ákveðið að fresta flutningi sendiráðsins til að auka líkur á að friðarsamkomulag náist í deilum Ísraela og Palestínumanna.
Þegar Trump ræddi við Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á fyrstu dögum forsetatíðar sinnar sagði Trump að flutningurinn yrði settur í forgang.
Trump frestar fyrirhuguðum flutningi sendiráðsins til Jerúsalem
Atli Ísleifsson skrifar
