Comey bar vitni fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings sem rannsakar tilraunir Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í dag. Í skriflegu ávarpi sem hann sendi nefndinni sagði hann Trump hafa krafið sig um lýsa yfir hollustu við hann.
„Ég þarfnast hollustu. Ég geri ráð fyrir hollustu,“ segir Comey að Trump hafi sagt við sig.
Mark Kasowitz, lögmaður Trump, sendi frá sér yfirlýsingu eftir framburð Comey fyrir þingnefndinni í dag þar sem hann hafnar orðum fyrrverandi forstjóra FBI sem Trump rak í síðasta mánuði vegna rannsóknar hans á tengslum starfsmanna framboðs hans við Rússa.
„Forsetinn sagði herra Comey heldur aldrei „Ég þarfnast hollustu. Ég geri ráð fyrir hollustu“ á nokkurn hátt eða að efni til,“ segir Kasotwiz sem tók einnig fram að forsetinn hefði rétt á að krefja undirmenn sína um hollustu samkvæmt frétt Washington Post.

Þá hafnar Kasowitz því að Trump hafi skipað Comey að stöðva rannsóknina á tengslum framboðsins við Rússa. Sakar hann Comey um að rjúfa trúnað með því að greina frá efni trúnaðarsamtala hans við forsetann. Kasowitz gaf í skyn að sá leki gæti verið rannsakaður af þartilbærum yfirvöldum.
Comey bar að Trump hafi lýst von sinni að hann gæti látið mál gegn þjóðaröryggisráðgjafanum Michael Flynn falla niður. Það segist Comey hafa túlkað sem svo að forsetinn væri að biðja hann um að hætta rannsókninni.
Þrátt fyrir að lögmaðurinn rengdi mikilvæga hluta framburðar Comey taldi hann orð fyrrverandi forstjórans um að hann hefði vissulega sagt Trump að hann væri ekki sjálfur til rannsóknar trúverðug og að þau réttlætu fullyrðingar forsetans þess efnis.
Lögmaðurinn las tilbúna yfirlýsingu á blaðamannafundi en tók engar spurningar frá fjölmiðlamönnum. Sjálfur hefur Trump enn ekki tjáð sig opinberlega um framburð Comey.