Fótbolti

Allt gengið á afturfótunum í þjálfaramálunum síðan að Mourinho stakk af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Vísir/Getty
Ítalska knattspyrnufélagið Internazionale frá Mílanó rak í gær þjálfara sinn Stefano Pioli eftir aðeins sex mánuði í starfi. Hann er annar þjálfarinn sem þarf að taka pokann sinn á tímabilinu.

Hinn 51 árs gamli Stefano Pioli tók við starfinu af Hollendingnum Frank de Boer sem var rekinn í nóvember. Pioli skrifaði undir samning til júní 2018 en náði ekki einu sinni að klára helminginn af honum áður en hann var tekinn.

Internazionale er í 7. sæti í ítölsku deildinni og þremur stigum á eftir nágrönnum sínum í AC Milan sem sitja í síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

Internazionale hefur hinsvegar ekki náð að fagna sigri í síðustu sjö deildarleikjum og forráðamenn félagsins voru búnir að fá nóg af Pioli sem fékk ekki að klára tímabilið.

Stefano Vecchi, þjálfari unglingaliðs félagsins, mun stýra liðinu í þremur síðustu leikjum tímabilsins.

Pioli var níundi þjálfari Internazionale síðan að Jose Mourinho stakk af eftir að hafa gert félagið að þreföldum meisturum tímabilið 2009-2010. Tíundi þjálfarinn er síðan Stefano Vecchi sem tók líka tímabundið við liðinu eftir að Frank de Boer var rekinn.

Það hefur allt gengið á afturfótunum í þjálfaramálum félagsins á þessum sjö árum sem eru liðin síðan að Mourinho fór til Real Madrid. Félagið hefur nú hafið leit að framtíðarþjálfara liðsins.

Þjálfarar Internazionale síðan að Mourinho stakk af:

Rafael Benítez     2010

Leonardo     2010–2011

Gian Piero Gasperini     2011

Claudio Ranieri     2011–2012

Andrea Stramaccioni     2012–2013

Walter Mazzarri     2013–2014

Roberto Mancini     2014–2016

Frank de Boer     2016

Stefano Vecchi     2016

Stefano Pioli     2016-2017

Stefano Vecchi     2017




Fleiri fréttir

Sjá meira


×