Innlent

WannaCry kominn til Íslands

Samúel Karl Ólason skrifar
Vírusinn WannaCry hefur stungið upp kollinum um allan heim.
Vírusinn WannaCry hefur stungið upp kollinum um allan heim. Vísir/AFP
Tvö tilfelli um WannaCry vírusinn hafa verið staðfest hér á landi. Netöryggissveitin CERT-ÍS hefur fengið tilkynningu frá einum þjónustuaðila um að vírusinn hafi borist í tölvur viðskiptavina hans. Í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun segir að ekki sé um að ræða starfsemi sem teljist til mikilvægra upplýsingainnviða samfélagsins.

Verulega hefur hægt á útbreiðslu vírussins, sem norður-kóreskir hakkarar hafa verið sakaðir um að hafa dreift.

Þá segir að vísbendingar hafi borist um veikleika hjá 20 IP-tölum sem skráðar eru hjá tólf mismunandi þjónustuaðilum.

„Hefur Netöryggissveitin sent viðkomandi þjónustuaðilum tilkynningar um þær vísbendingar og beðið er eftir endanlegum niðurstöðum frá þeim um hvort um smit af völdum WannaCry óværunnar er að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Þegar Netöryggissveitin fær vísbendingar um að ákveðnar IP-tölur sýni einkenni um smit, getur hún ekki séð hverjir eiga þær, heldur einungis hjá hvaða þjónustuaðila þær eru skráðar.

Þá vill sveitin benda þeim sem vista gögn sín í skýjum, að þau eru ekki örugg ef þau eru samkeyrð sjálfkrafa við tölvur og unnið með gögnin beint á tölvunni. Þá geti vírusinn smitast þangað líka og dulritað öll gögn sem þar eru. Líka gögn þeirra sem hafa deilt sínum gögnum með viðkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×