Niðurstaðan var ansi súr fyrir okkur Íslendinga en Svala Björgvinsdóttir komst ekki áfram upp úr fyrri undanriðlinum með lag sitt Paper sem hún flutti á sviði í Kænugarði í Úkraínu í kvöld.
Páll segist vera hress með að Belgía og Portúgal hafi komist áfram en hann minnir Íslendinga á að Ísland á enga vini og enga óvini þegar kemur að þessari keppni, eitthvað sem hann hefur sagt í frekar mörgum viðtölum undanfarið.
„Við getum engan veginn ætlast til að fá stig í áskrift frá neinum - ekki einu sinni norðurlandaþjóðunum. Það er erfitt fyrir Íslendinga að komast upp úr undanriðli þessarar keppni, jafnvel þótt við sendum fullkomlega frambærileg atriði út. Því fyrr sem við sættum okkur við það, því betra.“
Hann segir jafnframt að þetta sé ekki tilefni til að hætta að taka þátt í þessari keppni, en þetta er þriðja árið í röð sem Ísland kemst ekki í úrslit.
„Við eigum alveg jafn góðan séns og hinar þjóðirnar. Við höfum sýnt það og sannað,“ segir Páll Óskar.
Hann segist núna halda með Ítalíu, Portúgal og Belgíu.