Gunnar pakkaði Jouban saman og kláraði hann með hengingartaki eftir 47 sekúndur í annarri lotu. Hengingunni náði hann eftir að slökkva ljósin hjá Jouban með fallegu höggi og fylgja því eftir með sparki í andlitið.
„Gæðin sem ég sá hjá Gunnari á laugardaginn eru þau sömu og ég hef séð frá byrjun,“ segir Kavanagh í viðtali við The Mirror á Írlandi.

„Ég hef alltaf sagt að Gunnar er næsta stjarna veltivigtarinnar. Við höfum hrasað tvisvar sinnum en lært mikið á leiðinni,“ segir Kavanagh og vísar til tapanna á móti Rick Story og Demian Maia.
„Við lærðum mikið af tapinu á móti Story og enn þá meira af tapinu gegn Maia.“
„Í síðustu tveimur bardögum hefur Gunnar sýnt hvert hann getur komist. Hann er búinn að bæta þolið svakalega og að berjast standandi. Hann útboxaði Albert Tumenov sem er boxari og hann var líka betri standandi en Jouban en það er styrkleiki hans. Síðan er Gunnar augljóslega frábær í gólfinu,“ segir John Kavanagh.