Millivegahlauparinn Hlynur Andrésson er að gera það gott í Bandaríkjunum í byrjun utanhússtímabilsins en hann stundar nám við Eastern Michigan háskólann í Ypsilanti í Michigan fylki.
Hlynur hóf utanhúss keppnistímabilið með því að hlaupa 1500 metra hlaup á 3:49,19 mínútum á Releigh Relays í Norður-Karólínu um síðustu helgi og kom þá fyrstur í mark, nærri tveimur sekúndum á undan næsta manni. Frjálsíþróttasambandið segir frá.
Hlynur var þarna að bæta sinn besta árangur á ferlinum en hann átti best hlaup upp á 3:50,34 mínútur síðan í maí 2015 sem hafði komið honum í 8. til 9. sæti yfir bestu afreksmenn Íslands í 1500 metra hlaupi.
Með hlaupinu um helgina hoppaði Hlynur hinsvegar upp í sjötta sætið á afrekslistanum en aðeins fimm íslenskir hlauparar hafa náð að hlaupa 1500 metrana á undir 3:50,00 mínútum. Hlynur fór nú upp fyrir þá Kári Stein Karlsson, Svein Margeirsson og Guðmund Sigurðsson á listanum.
Bestan tíma Íslendings í þessari vegalengd á Jón Diðriksson en hann hljóp 1500 metrana á 3:41.65 mínútum 31. maí 1982 og er Íslandsmetið hans því komið til ára sinna. Jón á langbesta tímann en næsti maður er Ágúst Ásgeirsson sem hljóp á 3:45,47 mínútum 29.júlí 1976.
Hlynur heldur áfram að hoppa upp afrekslistann

Tengdar fréttir

Aníta og Hlynur keppa fyrir Ísland á EM í Belgrad
Aníta Hinriksdóttir og Hlynur Andrésson verða fulltrúar Íslands á Evrópumótinu innanhúss í frjálsíþróttum í byrjun árs.