Húsavíkurstofa, sem er sameiginlegur vettvangur ferðaþjónustuaðila á Húsavík, hefur sent frá sér ályktun vegna niðurskurðar á samgönguáætlun.
Er það gagnrýnt að ekki verði farið í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á landsbyggðinni en á meðal þess sem skorið er niður er Dettifossvegur sem ekki verður kláraður á árinu 2018 eins og áður var stefnt að. Segir í ályktuninni að þetta sé „áfall fyrir ferðaþjónustuuppbyggingu á Norðurlandi og þar með samfélagið í heild sinni.“
Þá segir jafnframt:
„Húsavíkurstofa furðar sig á því að stjórnmálamenn umgangist samgönguáætlun með þessum hætti sem gengur þvert gegn yfirlýsingum þeirra í aðdraganda nýafstaðinna kosningar um nauðsyn þess að setja meira fjármagn í uppbyggingu innviða, ekki síst til vegamála. Fyrir ferðaþjónustu á Íslandi er viðhald og uppbygging vegakerfisins og annarra samgöngumannvirkja einn mikilvægasti þáttturinn til þess að atvinnugreinin nái að vaxa og dafna öllum landsmönnum til heilla. Áframhaldandi fjársvelti til samgöngumála mun leiða til hruns í samgöngukerfinu innan skamms tíma sem mun koma hart niður á ferðaþjónustu, öðrum atvinnugreinum og íbúum landsins.
Dettifossvegur nr. 862 er niðurgrafinn moldarvegur sem getur alls ekki annað þeirri eftirspurn sem nú þegar er til staðar á svæðinu við Dettifoss, aflmesta foss Evrópu og einu stærsta aðdráttarafli fyrir ferðamenn á Norðurlandi.
Húsavíkurstofa skorar á Alþingi að tryggja fulla fjármögnun á lífsnauðsynlegum samgönguframkvæmdum sem efla munu innviði og atvinnutækifæri á landsbyggðinni.“
Dettifossvegur "niðurgrafinn moldarvegur“ sem annar engan veginn eftirspurn

Tengdar fréttir

Þingmenn hjóluðu í ráðherra vegna niðurskurðar á samgönguáætlun
Fjöldi þingmanna, aðallega úr stjórnarandstöðunni, kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag undir liðnum fundarstjórn forseta og gagnrýndu Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, harðlega vegna niðurskurðar sem gera þarf á samgönguáætlun í ár.

Þessir vegir lenda í tíu milljarða niðurskurði samgönguáætlunar
Vegur um Teigsskóg, Dettifossvegur, hringvegurinn í Berufirði og ný brú á Hornafjarðarfljót eru meðal verkefna sem lenda undir hnífnum.

Mótmæli sveitunga munu engu breyta
Samgönguráðherra segist skilja vel gremju fólks vegna niðurskurðar á samgönguáætlun. Um 200 íbúar í Berufjarðarbotni og nærsveitum lokuðu þjóðvegi 1 í tvær klukkustundir í gær með um 60 bílum.