Skoðun

Við getum og eigum að gera betur

Þórunn Egilsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir skrifar
Undanfarin ár hefur það verið skýr og sanngjörn krafa landsmanna að allir hafi góðan og greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Krafan er að allir hafi aðgang, óháð stöðu, búsetu eða efnahag. Krafan er mjög skiljanleg. Því þrátt fyrir að á síðasta kjörtímabili hafi verið gefið verulega í til málaflokksins,  þá þarf meira til. Enn betur þarf að laga starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna, aðstöðu sjúklinga og síðast en ekki síst þarf stefnumótun í heilbrigðismálum. Í því samhengi þarf að líta til þjóðarsjúkrahúss okkar, LSH og einnig til þeirra öflugu heilbrigðisstofnana sem eru víða um landið.

Forgangsmál Framsóknarmanna á þessum þingvetri er þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Markmið tillögunnar er að heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Þessa áætlun skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum.  Hjá því liggur þekkingin, það er fólkið sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Okkur Framsóknarmönnum finnst mikilvægt að fagfólkið komi víða af landinu, því aðstæður geta verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða Landspítalann.

Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt að okkar mati, því undanfarin ár hafa heilbrigðisstofnanir víða um landið verið sameinaðar. Þær sinna nú margar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg um að fara milli starfsstöðva stofnananna. Samkvæmt tillögunni skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo að eitthvað sé nefnt.  Auk þess skal jafnframt líta til þess hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi af Landspítala.

Við, þingmenn Framsóknarflokksins vonum að samstaða náist um þessi mikilvægu mál. Við þurfum að svara: hver er framtíðarsýn fagfólks og stjórnmálamanna um heilbrigðismál? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir víða um landið eða á að bjarga málunum með auknum einkarekstri? Hvað vilja landsmenn? Hér er um að ræða stórar spurningar en taka þarf ákvörðun. Það er löngu tímabært.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×