Viðskipti innlent

Útflutningstekjur hafa dregist saman um 3,5 til 5 milljarða vegna verkfallsins

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra á blaðamannafundi þar sem niðurstöður skýrslunnar voru kynntar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ráðherra á blaðamannafundi þar sem niðurstöður skýrslunnar voru kynntar. Vísir/Eyþór
Útflutningstekjur hafa dregist saman um 3,5 til 5 milljarða vegna verkfalls sjómanna þegar kemur að framleiðsluminnkun á ferskum bolfiskafurðum. Þetta kemur fram í skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem er lagt mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna. Þar er tekið fram að þegar kemur að útflutningstekjum sé það að nokkru tap sem ekki verður bætt með nýtingu aflaheimilda síðar.

Verkfall sjómanna hófst 14. desember síðastliðinn og hefur því staðið yfir í rúmar átta vikur. Í skýrslunni kemur fram að ef verkfallið stendur fram á loðnuvertíðina og veiðar falla niður mun þjóðarbúið verða af tekjum sem líklega verða taldar í þúsund milljónum króna.

Heildaráhrif á ráðstöfunartekjur 3,5 milljarðar króna

Heildaráhrif verkfallsins á ráðstöfunartekjur sjómanna eru talin nema um 3,5 milljörðum króna til frá upphafi verkfallsins 14. desember síðastliðinn til 10. febrúar. Áhrif á skylduiðgjöld til lífeyrissjóða sjómanna eru talin nema um 800 milljónum króna á tímabilinu. Hér er um að ræða tekjur sem að mestu eða öllu leyti kunna að skila sér við nýtingu aflaheimilda síðar.

2.600 starfsmenn í fiskvinnslu orðið fyrir tekjuskerðingu

Í það minnsta 2.400 til 2.600 starfsmenn í fiskvinnslu hafa orðið fyrir tekjuskerðingu vegna verkfallsins. Tekjutap þessa hóps er metið á um 818 milljónir króna frá upphafi verkfallsins til 10. febrúar. Hér er um að ræða beint tekjutap sem fallið hefur á hóp launþega sem ekki á möguleika á að fá hann bættan með nýtingu aflaheimildanna síðar nema ef til vill að mjög takmörkuðu leyti. Áætluð áhrif á greiðslur þessa hóps í skylduiðgjöld lífeyrissjóða eru metin á um 185 milljónir króna.

312 milljónir í atvinnuleysisbætur

Atvinnuleysistryggingasjóður hefur þegar greitt um 312 milljónir króna í atvinnuleysisbætur og kauptryggingu til fiskvinnslufólks vegna verkfallsins. Er þá ótalinn áfallinn kostnaður vegna febrúar 2017. Greiðslur í atvinnuleysistryggingasjóð eru taldar hafa lækkað um 126 milljónir króna, þar af um 24,5 milljónir króna vegna launa fiskverkafólks, en það eru greiðslur sem ólíklegt má telja að skili sér með nýtingu aflaheimilda síðar.

Tekjutap ríkissjóðs 2,5 milljarðar

Gróflega áætlað tekjutap ríkissjóðs vegna lækkaðra staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds fiskverkafólks og sjómanna (hásetar, skipstjórnarmenn, vélstjórar) vegna verkfallsins er metið alls 2,5 milljarðar króna. Þar af 392 milljónir vegna launa fiskverkafólks og 2,1 milljarður vegna launa sjómanna.

Gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga er metið um einn milljarður króna.

Sumt tekjutap óafturkræft eftir 8 vikur

Í skýrslunni er tekin fyrir sú fullyrðing að aflaheimildir séu enn til staðar þrátt fyrir átta vikna verkfall og að hægt sé að nýta og hafa af þeim tekjur síðar. Í skýrslunni er tekið fram að þessi fullyrðing eigi síður við rök að styðjast eftir því sem lengra líður frá upphafi verkfallsins.

Í skýrslunni er tekið fram að eftir átta vikur af verkfalli sé sumt tekjutap launafólks, ýmissa fyrirtækja og opinbera aðila orðið óafturkræft.

Áhrifa verkfallsins gætir víða

Í skýrslunni er farið yfir að verðmætasköpun í fiskveiðum og vinnslu samkvæmt þjóðhagsreikningum hafi verið á bilinu 140 til 170 milljarðar króna árlega frá árinu 2008, á föstu verðlagi, sem samsvarar 380 til 460 milljónum króna á dag að meðaltali.

Að viðbættum óbeinum efnahagslegum áhrifum má leiða getum að því að verðmætasköpun sjávarútvegs og tengdra greina hafi numið 350 - 425 milljörðum króna árlega frá 2008 sem samsvarar 960 - 1160 milljónum króna á dag að meðaltali.

„Ekki er þó hægt að halda því fram að þjóðhagslegt tap af völdum verkfallsins hafi numið 960-1160 milljónum króna á hverjum verkfallsdegi hingað til, en bent er á að rannsóknir gefi það til kynna að við algjört og langvarandi vinnslustopp nálgist hið þjóðhagslega tap á degi hverjum þessar upphæðir. Vinnustoppið nú er hvorki algjört né langvarandi, en er engu að síður mjög víðtækt og hefur dregist á langinn þannig að áhrifa þess gætir nú talsvert víðar í hagkerfinu en á fyrstu vikum verkfallsins,“ segir í skýrslunni.

Skýrslan var unni fyrir tilstuðlan Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Settur var saman vinnuhópur fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélagi undir forsvari fulltrúa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Til liðs við vinnuhópinn voru fengnir starfsmenn Íslenska sjávarklasans sem báru hita og þunga af vinnunni sjálfri í góðu samstarfi við vinnuhópinn.

Skýrsluna má lesa í heild hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×