Fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna komu saman til fundar í húsnæði ríkissáttasemjara klukkan 14 í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu er farið að sjást til lands í deilum aðila og telja bjartsýnustu menn mögulegt að samningar náist í deilunni í dag.
RÚV greindi frá því í hádeginu að samninganefnd sjómanna hefði komið saman til fundar í Borgartúninu í morgun og haldið eigin fund. Í framhaldinu var svo sest að samningaborðinu með útgerðarmönnum og ríkissáttasemjara klukkan 14 samkvæmt Mbl.is.
Sjómenn sendu útgerðinni það sem þeir kölluð lokatilboð sitt á mánudag. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi svöruðu með gagntilboði síðdegis í gær. Því tilboði var hafnað og ítrekað að tilboð sjómanna stæði enn.
Fróðlegt verður að sjá hvernig framvindur en lykilmenn í samningaviðræðum hafa ekki viljað tjá sig um stöðu mála við fréttastofu það sem af er degi.
Farið að sjást til lands í sjómannadeilunni
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
