Það verður þriggja landa einvígi þar sem bestu spretthlauparar Íslands, Danmerkur og Skotlands etja kappi.
Á meðal keppenda er Skotinn Allan Hamilton sem vann skoska meistaramótið á nýju meti, 6,74 sekúndum, á laugardaginn. Það er líklegt að hann þurfi að hafa sig allan við til að vinna Danann Festus Asante sem er búinn að hlaupa á 6,81 sekúndum í ár.
Þá munu Daninn Kristofer Hari, sem á best 10,37 s í 100 m hlaupi (frá árinu 2013) og Íslandsmethafinn í 100 m hlaupi, Ari Bragi Kárason, án vafa leggja allt undir í þessari jöfnu keppni.
Ari Bragi á best 6,94 s í 60 m, nokkrum hundraðshlutum betra en tugþrautarstjarnan Tristan Freyr Jónsson sem á best sjö sekúndur sléttar.
