Það er fróðlegt að skoða betur hvar skotin hans Rúnars Kárasonar eru að fara og hvar markverðirnir eru ekki að verja boltana frá honum.
Rúnar átti flottan leik á móti Makedóníu og var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk. Hann skoraði jöfnunarmarkið og fékk síðan einnig tækifæri til að tryggja liðinu sigurinn.
Lokaskot Rúnars var hinsvegar varið og Ísland mætir því Frakklandi í 16 liða úrslitunum en ekki Noregi.
Rúnar skoraði 22 mörk úr 39 skotum en tíu þeirra komu með langskotum samkvæmt tölfræði mótshaldara.
Rúnar hafði mest áður skorað 21 mark á stórmóti en það gerði hann á EM 2014. Rúnar er því búinn að setja nýtt persónulegt met á þessu móti.
Það má líka sjá í opinberri tölfræði heimsmeistaramótsins hvert Rúnar er að skjóta boltanum á markið og þegar sú samantekt er skoðuð er auðvelt að fullyrða það að markverðir mótherjanna verja ekki uppi frá Rúnari.
Í þessum fimm leikjum hefur Rúnar tekið 10 skot efst í markið og þau hafa öll legið í marknetinu. Hans besti staður er uppi í hægri horninu en öll sex skotin hans þangað hafa þanið út netmöskvanna.
Hér fyrir neðan má sjá hvert skotin hans Rúnars hafa farið á mótinu og hér er einnig hægt að skoða tölfræði hans betur á heimasíðu heimsmeistaramótsins.
