Engin fundur hefur verið boðaður meðal samninganefnda sjómanna og útgerðarmanna í næstu viku eftir að upp úr slitnaði í viðræðum þeirra í liðinni viku. Verkfallið hófst þann 14. desember og hefur staðið yfir í tæpar sjö vikur. Báðir deiluaðilar sitja fastir á sínum kröfum og deilan er í algjörum hnút.
Valmundur Valmundsson, formaður sjómannasambands Íslands, segir að ef með eru taldir fjórir verkfallsdagar í nóvember sé verkfallið nú það lengsta í sögunni. Lengsta verkfall sjómanna hingað til var árið 2001 en það stóð yfir í sjö vikur.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið boðað til samningafundar í vikunni vonar Valmundur að sú verði raunin enda staðan alvarleg.
„Það er bara allt fast. Bara stál í stál og það strandar á því að við stöndum fast um kröfuna á hækkun á olíuverðsviðmiðinu og bætur fyrir sjómannaafsláttinn,“ segir Valmundur. Í ljósi þess hve langt verkfallið er orðið og hve langt er á milli aðila segir hann ljóst að staðan sé mjög alvarleg.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið boðað til samningafundar í vikunni vonar Valmundur að sú verði raunin.
„Ég ætla nú að vona að við gerum það. Það er vonandi við finnum einhvern flöt á að hittast og ræða málin. Ég held að það endi nú örugglega með því.“
Óttast sjómenn ekki að það komi til með að þurfa að setja lög á þetta verkfall?
„Það er bara yfirlýst frá stjórnvöldum að það verði ekki sett lög á þetta verkfall. Ég er heldur ekki viss um að það sé vilji til þess á Alþingi, eins og staðan er núna,“ segir Valmundur.
Enn stál í stál í verkfalli sjómanna
Tengdar fréttir

Formaður Sjómannasambandsins: Get tekið á mig að slíta viðræðum en það er líka þeim að kenna
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, hefur ekki áhyggjur af því að erlendir markaðir tapist vegna kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)