Innlent

Ræddu styrkleika og veikleika í mögulegu stjórnarsamstarfi með Viðreisn og Bjartri framtíð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fundur hans með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í morgun hafi verið gott veganesti inn í áframhaldandi stjórnarmyndunarviðræður hans við Bjarta framtíð og Viðreisn.

Þá telur hann líklegt að flokkarnir nái að klára viðræðurnar í þessari viku en þetta kom fram í viðtali Heimis Más Péturssonar, fréttamanns, við Bjarna í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

Að sögn Bjarna leist þingflokknum ágætlega á það sem hann lagði upp með á fundinum að verið væri að ræða á milli flokkanna.

„Við ræddum líka veikleikana og styrkleikana í svona stjórnarsamstarfi og reynum að gera það bara opið og hreinskiptið og það var líka gott að gera það og fara yfir það með þingflokknum.“

Aðspurður hvort að Evrópumálin hafi verið erfið á fundinum sagði hann svo ekki vera enda væru þau ekki risamál í viðræðum flokkanna þriggja. Hann benti hins vegar á hið augljósa, tæpan meirihluta.

 

„Það er auðvitað mjög tæpur meirihluti í þessu samstarfi, við höfum verið að ræða það undanfarna mánuði og það er líka hvernig verkefni skiptast í þinginu. Þetta eru hlutir sem menn vilja vera að velta aðeins fyrir sér en það eru líka miklir kostir við svona samstarf.“

Bjarni sagði líklegt að vikan dugi til að klára viðræðurnar.

„Við erum komin með allan ytri rammann að  samstarfi og það eru ágætar líkur á því að við getum lokið því. En það verður að segjast eins og er að það eru enn mikilvæg atriði sem standa enn út af.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×