Um áttatíu söngmenn mynda þennan magnaða kór. Friðrik segir þá samstiga og mæta vel á æfingar. „Þetta verður 23. árið sem við höldum aðventutónleika í Hallgrímskirkju,“ segir hann og bætir við stoltur: „Elmar Þór Gilbertsson er einsöngvari okkar í ár. Hann hóf söngnám hjá mér á sínum tíma í Söngskóla Sigurðar Demetz og er nú orðinn atvinnusöngvari um allan heim, enda frábær tenór.“
Spurður hvort hann hafi séð það fyrir þegar Elmar var á fyrstu stigum söngnámsins svarar Friðrik: „Ég sagði fljótlega við hann: „Þú átt eftir að verða söngvari og alveg örugglega leikari.“ Hann er nefnilega svo góður í hvoru tveggja. Svo erum við að vanda með trompetleikarana Ásgeir H. Steingrímsson og Eirík Örn Pálsson og Eggert Pálsson pákuleikara úr Sinfóníunni með okkur og Lenka Mátéová er á orgelinu.

„Elmar kemur til með að syngja Ave-Maríu Sigvalda Kaldalóns og Ó, helga nótt sem allir þekkja. Svo syngur hann með okkur og tónleikagestum Guðs kristni í heimi, Nóttin var sú ágæt ein og Heims um ból. Það er mjög áhrifamikið þegar 80 karlar og kannski 600 manns standa í kirkjunni og syngja.“
Karlakór Reykjavíkur varð 90 ára í upphafi þessa árs. Hann var stofnaður 3. janúar 1926 af Sigurði Þórðarsyni tónskáldi. Þrír stjórnendur hafa borið hann uppi í 86 ár, einn þeirra er Friðrik sem hefur stjórnað hátt í þrjá áratugi.
„Ég ætlaði bara að vera einn mánuð. Páll Pampichler, stjórnandi kórsins og líka Sinfóníunnar, bað mig að koma og raddþjálfa. En hann hætti fljótlega eftir að við kynntumst og sagði: „Þú tekur bara við,“ segir Friðrik og lofar mikilli hátíð um helgina.
Greinin birtist fyrst 16. desember 2016