Gunnlaugur Fannar Guðmundsson hefur skrifað undir samning við Víking, en hann kemur til liðsins frá Haukum þar sem hann hefur spilað í Inkasso-deildinni undanfarin ár.
Gunnlaugur er öflugur miðvörður sem hefur spilað 100 leiki fyrir meistaraflokk Hauka frá árinu 2011, en hann hefur verið einn öflugasti leikmaður Hauka undanfarin ár.
„Við í Víkingi höfum haft augastað á Gunnlaugi frá því síðastliðið sumar og töldum hann geta styrkt leikmannahópinn okkar. Hann hefur verið að æfa hjá okkur nú á haustmánuðum og virðist hafa allt sem þarf til þess að geta náð árangri í efstu deild," sagði Heimir Gunnlaugsson, formaður meistaraflokksráðs Víkings.
Gunnlaugur Fannar er annar leikmaðurinn sem kemur frá Hafnarfjarðarliði, en á dögunum gekk Örvar Eggertsson í raðir Víkings frá FH þar sem hann er uppalinn. Örvar er sonur Eggerts Bogasonar, frjálsíþróttakappa.
