Ljóst er að sú staða mun koma upp á einhverjum tímapunkti að Landhelgisgæslan getur ekki siglt varðskipi á strandstaði, flogið þyrlu út á sjó að sækja sjómenn í vanda eða komið týndum og slösuðum til aðstoðar á landi þegar kallið berst.“
Þetta eru viðbrögð forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georgs Lárussonar, þegar hann er spurður um nýframlagt fjárlagafrumvarp.
Í texta frumvarpsins er með skýrum hætti farið í gegnum þarfir Gæslunnar til næstu ára, og hversu gríðarleg þörf er á að bæta stöðu stofnunarinnar umtalsvert – bæði með tilliti til löggæslu á hafi og leitar- og björgunarþjónustu. Þrátt fyrir þá upptalningu er það tekið fram að „ekki gefst tækifæri til að auka fjárveitingar“ hvað báða þessa þætti varðar árið 2017.

Fjárframlög til Landhelgisgæslu Íslands hafa verið skorin niður um 30 prósent frá árinu 2009 sem nemur um 1.200 milljónum króna. Á sama tíma hafa verkefni Landhelgisgæslunnar stóraukist, meðal annars vegna gífurlegrar fjölgunar ferðamanna og mikillar aukningar í siglingum á leitar- og björgunarsvæði Íslands. Gæslan hefur allt frá árinu 2010 aflað sértekna í útlöndum til að mæta þessum niðurskurði að hluta.
„Með því móti tókst að halda uppi lágmarks björgunar- og öryggisþjónustu, mannskap í þjálfun og viðhalda verðmætum tækjum. Nú er svo komið að skip Landhelgisgæslunnar sem notuð hafa verið til þeirra verkefna eru orðin of gömul og því ekki lengur gjaldgeng á erlendum markaði. Af þeim sökum verður Landhelgisgæslan af í það minnsta 700 milljónum króna á næsta ári. Til að bæta það upp og leita leiða til að rétt halda í horfinu með lágmarks viðbragði vegna leitar og björgunar, óskaði Landhelgisgæslan eftir hækkuðu fjárframlagi sem nemur 300 milljónum króna.

„Það er nauðsynlegt að hér sé lágmarks björgunargeta og Íslendingar sem sjálfstæð þjóð geta ekki látið það um sig spyrjast að hún geti ekki bjargað sér sjálf né þeim gestum sem koma til landsins eða sigla á hafsvæðum okkar,“ segir Georg.
Í fjárlagafrumvarpinu sjálfu kemur fram að aðhaldskrafa milli áranna 2009 og 2015 nemur um það bil 1,2 milljörðum króna. Því má ætla að til að ná sama stað og Landhelgisgæslan var á fyrir hrun vanti að minnsta kosti sömu upphæð inn í reksturinn – og er þá ekki tekið tillit til stóraukinna verkefna Gæslunnar vegna ferðamannastraumsins til landsins og fleiri þátta.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu