
Skúli segir að ráðist hafi verið í átak til þess að gera bæði störf grunnskólakennara og leikskólakennara eftirsóknarverðari og líka starfsmanna á frístundaheimilum. „Frístundin hefur verið í átaki alveg síðan í sumar. Það hafa verið auglýsingar á samskiptamiðlunum, það hafa verið plakatadreifingar í háskólunum og einhverju leyti framhaldsskólunum. Svo hefur verið mjög mikill maður-á-mann-hernaður á nemendur fyrr og nú í tómstundafræðum,“ segir Skúli og bætir við að leikskólinn hafi fylgt þessu eftir með auglýsingum sem eru farnar í gang. „Þannig að það eru allar klær úti,“ segir hann.
Reykjavík er svo að fara af stað með víðtækt samstarf, bæði við Félag grunnskólakennara og Félag leikskólakennara, Háskóla Íslands, menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um að greina stöðuna. „Þar sem við förum í gegnum þetta mál, hvernig stendur á því að það eru svona fáir sem sækjast eftir því að fara í námið, hvaða leiðir koma til greina til að fjölga þeim sem fara í námið, fjölga þeim sem ílengjast í starfi líka og hvernig við getum bætt starfsumhverfið,“ segir Skúli. Hann segist vonast til þess að tillögur um aðgerðir muni líta dagsins ljós í febrúar. Skúli segir launin skipta máli, en það sé augljóslega fleira sem spili inn í. „Við gerðum stóra samninga 2014, um 30 prósenta meðalhækkun grunnlauna á einu bretti. Ég held að flestir geti verið sammála um að það er býsna stórt skref en það dugði bara ekki til,“ segir hann.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.