Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sent Donald Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, heillaóskir fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þetta kemur fram á vefsíðu forsetaembættisins.
„Forseti áréttaði í kveðju sinni rótgróna samvinnu og vináttu þjóðanna tveggja og langa sameiginlega sögu sem teygði anga sína allt aftur til þess er sæfarendur frá Íslandi og Grænlandi tóku land í Norður-Ameríku fyrir meira en þúsund árum. Öldum síðar hefðu þúsundir Íslendinga flutt búferlum vestur um haf og leitað nýrra tækifæra sem nýbúar í frjálsum samfélögum,“ segir á síðunni.
Þá segir að Bandaríkin og Ísland deili mörgum mikilvægum gildum; að styðja einhuga frelsi til hugsana og tjáningar, jafnrétti kynjanna og hafi í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.
Tilkynninguna í heild má sjá hér fyrir neðan.
Forseti hefur sent Donald Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni í kjölfar sigurs hans í forsetakosningunum.
Forseti áréttaði í kveðju sinni rótgróna samvinnu og vináttu þjóðanna tveggja og langa sameiginlega sögu sem teygði anga sína allt aftur til þess er sæfarendur frá Íslandi og Grænlandi tóku land í Norður-Ameríku fyrir meira en þúsund árum. Öldum síðar hefðu þúsundir Íslendinga flutt búferlum vestur um haf og leitað nýrra tækifæra sem nýbúar í frjálsum samfélögum.
Enda þótt Bandaríkin væru eitt stærsta lýðræðisríki veraldar en Ísland eitt hið minnsta deildu þjóðirnar mörgum mikilvægum gildum; við styðjum einhuga frelsi til hugsana og tjáningar, jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.
