Skoðun

Tímamót í tónheimum

Jakob Frímann Magnússon og Víkingur Heiðar Ólafsson skrifar
Á miðju sl. ári tóku undirritaðir sig saman um að rita grein á þessum vettvangi um nýja námsmöguleika á framhaldsskólastigi fyrir þá sem kjósa að leggja tónlistina fyrir sig, en í mennta- og menningarmálaráðuneyti hafði þá um hríð staðið yfir skoðun á nýbreytni af þeim toga.

Lýstum við einlægum áhuga á framgangi slíkra hugmynda og hefðum báðir á sínum tíma vissulega kosið að geta átt kost á slíku námi hérlendis. Í niðurlagi greinarinnar gátum við þess hve merk tímamót slíkur skóli gæti markað í íslensku tónlistarlífi og menntun tónlistarnemenda.

Það eru því mikil gleðitíðindi að þetta skuli nú hafa gengið farsællega eftir og að frá og með næsta skólaári standi tónlistarnemendum hérlendis til boða ný námsbraut sem gerir þeim kleift að ljúka framhaldsskólanámi í einum sameinuðum skóla með tónlist sem aðalfag.

Þetta þarfa og tímabæra framtak mun þegar hjá líður standa sem einn af merkustu bautasteinum ráðherratíðar Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, sem kveður nú stjórnmálin eftir glæstan feril. Hann hefur að auki m.a. beitt sér fyrir auknum framlögum til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stofnun nýs Hljóðritasjóðs, endurreisn Innheimtumiðstöðvar gjalda af höfundarvörðu efni, stutt myndarlega við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, þ.m.t. Útflutningsjóð íslenskrar tónlistar, tryggt Íslensku óperunni rekstrarframlög til 5 ára og almennt reynst stétt tónlistarfólks og tónlistarunnenda afar öflugur haukur í horni.

Um leið og við kveðjum þennan atorkusama atfylgismann hinna skapandi greina, viljum við þakka öll þau góðu verk sem unnin hafa verið í þágu greinarinnar undir hans forystu og leiða munu til vaxandi blómgunar og velsældar í íslensku tónlistarlífi.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×