Landsliðsmaðurinn Kári Árnason skoraði fyrir Malmö FF sem vann afar mikilvægan sigur gegn Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Fyrir leikinn í dag var Malmö með fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar en Norrköping sat í 2.sæti. Norrköping eru núverandi sænskir meistarar en Arnór Ingvi Traustason lék með þeim áður en hann gekk til liðs við Rapid Vín í sumar.
Malmö var sterkari aðilinn í leiknum í dag en Norrköping voru einnig hættulegir. Kári Árnason skoraði fyrsta mark leiksins á 29.mínútu með góðum skalla. Kári virðist vera í hörkuformi þessa dagana því hann skoraði í landsleiknum gegn Finnum á dögunum auk þess að leggja upp mark gegn Tyrkjum fyrir viku síðan.
Norrköping tókst að jafna metin í upphafi síðari hálfleiks með marki frá Nicklas Bärkroth. Leikurinn var svo í járnum þar til Alexander Jeremejeff skoraði sigurmark Malmö á 69.mínútu leiksins þegar hann skoraði með öxlinni af stuttu færi.
Með sigrinum eykur Malmö forystu sína í deildinni í sjö stig þegar fjórar umferðir eru eftir.
Haukur Heiðar Hauksson kom inn á á 62.mínútu þegar lið hans AIK lagði Östersund 2-0. Haukur náði sér í gult spjald í nokkuð þægilegum sigri AIK sem jafnaði þar með Norrköping að stigum og skaust upp í 2.sætið í sænsku deildinni.
Hjörtur Logi Valgarðsson var ekki í leikmannahópi Örebro sem lagði Kalmar 2-1. Hjörtur Logi hefur átt við meiðsli að stríða og óvíst hvort hann leiki meira með Örebro á tímabilinu.
Kári skoraði í mikilvægum sigri Malmö
Smári Jökull Jónsson skrifar

Mest lesið


Tryllt eftirspurn eftir miðum
Körfubolti







Sjáðu Örvar fara á flug, perlu Kjartans og mark úr óvæntustu átt
Íslenski boltinn
