Veðurstofan varar við stormi við suður-og vesturströndina og á miðhálendinu á morgun. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar vakthafandi veðurfræðings er um venjulega haustlægð að ræða með tilheyrandi rigningu og roki.
„Þetta er svona suðaustanátt svolítið hjá okkur núna og það verður vætusamt á sunnanverðu landinu en svo kólnar eftir helgina,“ segir Þorsteinn. Hann segir nokkrar lægðir á sveimi fyrir sunnan landið og að ný lægð gæti komið upp að landinu á föstudag.
Aðspurður hvort að leifar af fellibylnum Matthew sem nú gengur yfir eyjarnar í Karabíska hafinu muni koma hingað til lands segir Þorsteinn erfitt að segja til um að spá svo langt fram í tímann. Það komi ekki í ljós fyrr en um miðja næstu viku.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Hægt vaxandi suðaustanátt og rigning með köflum, 13-23 metrar á sekúndu á morgun, hvassast við suðvesturströndina og bætir í úrkomu. Heldur hægari norðaustan til og úrkomulítið. Dregur úr vindi vestanlands annað kvöld. Hiti 7 til 16 stig að deginum, hlýjast á norðausturlandi.
Á fimmtudag:
Suðaustan 10-15 metrar og talsverð rigning sunnan- og vestanlands fyrripart dags, en síðan skúrir. Bjarviðri norðaustan til. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast norðaustan til.
Á föstudag:
Suðaustan 13-18 metrar og dálítil væta syðst, en annars mun hægara og bjart með köflum. Hiti 7 til 12 stig.
Á laugardag og sunnudag:
Ákveðin suðaustlæg átt og vætusamt á sunnanverðu landinu, en úrkomulítið fyrir norðan. Áfram milt veður.
Á mánudag og þriðjudag:
Suðaustlæg átt og skúrir eða dálítil rigning, en þurrt að mestu norðaustan til. Kólnandi veður.
Veðurstofan varar við stormi á morgun
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
