Hundrað milljónir munu horfa
Nú eru aðeins sex vikur eftir þar til Bandaríkjamenn velja sér nýjan forseta, kosningabaráttan er því á lokametrunum og það mikilvægasta er framundan.
Búist er við að um í 100 milljónir Bandaríkjamanna muni horfa á fyrstu sjónvarpskappræðurnar af þremur, sem fram fara í Hofstra háskóla í New York í kvöld. Gangi það eftir verða kappræðurnar þriðji stærsti sjónvarpsviðburður bandarískrar sögu.

Aldrei hafa fleiri Bandaríkjamenn horft á sjónvarp í einu en yfir SuperBowl úrslitaleiknum árið 2010, eða rúmar 111 milljónir, en þess utan eiga sæti á topplistanum lokaþættir þriggja vinsælla sjónvarpsþátta, þ.e. M*A*S*H, Staupasteins og Friends.
Trump og Clinton verða hinsvegar þeir forsetaframbjóðendur sem flestir horfa á, því þau munu að líkindum slá metið sem Reagan og Carter settu 1980.
Óvinsælustu frambjóðendur allra tíma
Þessar miklu væntingar um áhorf skýrast að hluta af því hversu umdeild þau Clinton og Trump eru bæði, því aldrei hafa tveir forsetaframbjóðendur verið jafn illa liðnir meðal almennings.
Mjótt hefur verið á mununum milli þeirra samkvæmt skoðanakönnunum og ef kosið væri í dag segjast rúm 30% ætla að kjósa Trump en tæp 40% vilja Clinton.

Cinton kemur þaulundirbúin til leiks
Trump er hinsvegar vanur sjónvarpsmaður og það var meðal annars frammistaða hans í sjónvarpskappræðum innan repúblikanaflokksins sem skiluðu honum útnefningu flokksins.
Clinton er sögð hafa undirbúið sig með heilu herliði ráðgjafa umræðurnar í kvöld á meðan Trump treystir á nokkra lykilmenn og sjálfa sig. Kappræðurnar standa í 90 mínútur og skiptast í sex efnisflokka, þar sem þrír eru tilkynntir fyrirfram en þrír verða óundirbúnir. Útsendingin hefst klukkan níu að staðartíma í New York, eitt eftir miðnætti á Íslandi.