Fótbolti

Paulo di Canio rekinn vegna fasista-húðflúrs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Húðflúrið umrædda og fasistakveðjan gegn Lazio 2005.
Húðflúrið umrædda og fasistakveðjan gegn Lazio 2005. vísir/epa/afp
Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Paolo di Canio var rekinn úr starfi sínu sem sérfræðingur um ítölsku A-deildina hjá Sky Italia eftir að sýna í beinni útsendingu húðflúr sem vísar til fyrrverandi ítalska einræðisherrans, Benito Mussolini. BBC greinir frá.

Di Canio hefur vanalega verið í skyrtu í útsendingum en mætti á sunnudaginn í stuttermabol þar sem „dux“-húðflúr hans sást vel. Allt varð vitlaust á samfélagsmiðlum á Ítalíu vegna atviksins.

Dux er komið af latneska orðinu Duce sem þýðir leiðtogi en það er titilinn sem Mussolini gaf sér. Benito Mussolini var einræðisherra Ítalíu í 20 ár þar til 1943 en hann var tveimur árum síðar tekinn af lífi af ítölskum kommúnistum þegar hann reyndi að flýja landið.

„Við gerðum mistök. Við viljum biðja alla afsökunar á þessu,“ sagði einn yfirmanna Sky Italia í yfirlýsingu frá sjónvarpsstöðinni.

Di Canio hefur áður verið gagnrýndur fyrir pólitískar skoðanir sínar en hann neitaði að ræða þær á fyrsta blaðamannafundi sínum sem knattspyrnustjóri Sunderland árið 2013.

Di Canio var sektaður af ítalska félaginu Lazio árið 2005 þegar hann spilaði með því fyrir að heilsa að fasista sið eftir borgarslaginn gegn Roma.

Húðflúrið átti ekki að koma neinum yfirmönnum hans á óvart en Di Canio hefur margsinnis rifið sig úr að ofan eftir fótboltaleiki þar sem það hefur sést mjög vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×