UFC tilkynnti um helgina að haldið verði bardagakvöld í Belfast á Norður-Írlandi þann 19. nóvember en ekki hefur verið tilkynnt hvaða bardagar verði á dagskrá.
Gunnar Nelson er afar vinsæll á Írlandi og hefur barist þar áður. Það mætti því leiða líkur að því að forráðamenn UFC hafi áhuga á að fá Gunnar til Norður-Írlands.
„Við höfum átt í viðræðum við UFC um eitt bardagakvöld en það er ekkert endanlegt,“ segir Haraldur Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, í samtali við Vísi í dag. „Það er of snemmt að segja til um hvað gerist en við erum að skoða málin.“
Gunnar er nú í ellefta sæti á styrkleikalista UFC í veltivigt en meira er fjallað um bardagakvöldið í Belfast á vef MMA frétta.
BREAKING: We're coming back to Northern Ireland!! Get the latest on #UFCBelfast here: https://t.co/VnsLimSKNt pic.twitter.com/kTbJAPhpng
— UFC Europe (@UFCEurope) August 19, 2016