Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að ummæli sín um að ekki mætti hafa hlutina í ríkisstjórn eins og á leikskóla þannig að hver berji í borðið þangað til hann fái sitt hafi verið misheppnuð. Þetta hafi leikskólakennarar bent honum á.
„Varðandi leikskólasamlíkinguna þá held ég að hún hafi verið misheppnuð hjá mér,“ sagði Bjarni á þingi í dag. „Það mátti misskilja það að ég teldi að á leikskólum gæti menn fengið sitt fram með því að berja í borðið. Það er auðvitað ekki þannig eins og sumir leikskólakennarar hafa bent mér á,“ og uppskar Bjarni hlátrasköll á þinginu.
Bjarni lét ummæli sín um að ekki væri hægt að hafa hlutina eins og á leikskóla falla eftir að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra sat hjá við afgreiðslu á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar í síðustu viku, að eigin sögn vegna þess að ekki væri hugað nægilega vel að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum.
Helgi Hjörvar þingflokksformaður Samfylkingarinnar gerði orð Bjarna að umræðuefni á þingi í dag og spurði, í ljósi þess að fjármálaráðherra hafi lagt áherslu á að vinnubrögðin á þingi mættu ekki vera eins og á leikskóla, hvort ágreiningur væri innan ríkisstjórnarinnar um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar og hvort stæði til að afgreiða það á yfirstandandi þingi.
Svaraði Bjarni því að viðkomandi frumvarp lægi frammi á vef velferðarráðuneytisins og hann biði þess að ráðherra þess málaflokks, Eygló Harðardóttir, myndi tefla því fram í ríkisstjórn.
