Tökur á myndinni fóru fram haustið 2014 og vorið 2015 í Frakklandi og á Íslandi. Á meðan á þeim stóð háði Sólveig baráttu við krabbamein og lést í ágúst árið 2015. Hún lét veikindin ekki aftra sér frá því að klára tökur og eftirvinnslu myndarinnar að mestu leyti. Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðastliðinn maí og þar hlaut hún SACD-verðlaunin fyrir bestu myndina á frönsku í Director’s Fortnight dagskránni.
„Við veljum Sundáhrifin af að því okkur finnst Sólveig vera frábær kvikmyndagerðarkona og við höfum sýnt mikið af myndum eftir hana. Þetta er fyrst og fremst skemmtileg og góð mynd. Ég var viðstödd heimsfrumsýninguna úti í Cannes og hún vakti mikla hrifningu gesta í salnum,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.
„Það var mikið klappað og mikið hlegið í salnum þannig að við erum mjög áægð með það að velja þessa mynd eftir þessa frábæru listakonu sem opnunarmynd okkar.“
Myndin fjallar um Samir sem er yfir sig ástfanginn af sundkennaranum sínum Agathe og vill bæta ráð sitt gagnvart henni. Hann eltir hana til Íslands en verður fyrir rafstraumi og missir minnið. Hvernig getur hann bætt upp fyrir eitthvað sem hann man ekki eftir og getur sundkennarinn hjálpað honum að endurheimta minnið og um leið ást hans í hennar garð?

Í stórum hlutverkum í myndinni eru Didda Jónsdóttir, Frosti Jón Runólfsson, Ingvar E. Sigurðsson og Kristbjörg Kjeld. Með aðalhlutverk fara Florence Loiret Caille og Samir Guesmi. Sólveig leikstýrði á ferlinum fjórtán myndum, bæði heimildarmyndum og leiknum myndum, en hún var heiðruð á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2001 fyrir myndina Made in the USA sem fjallaði um aftöku í Texas. Árið 1999 var Sólveig valin besti leikstjórinn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ghent fyrir myndina Haut les Coeurs. Mynd hennar Queen of Montreuil vann áhorfendaverðlaunin á RIFF árið 2012.
Sundáhrifin verður sýnd í stóra sal Háskólabíós og segir Hrönn vonir standa til að aðalleikarar myndarinnar komi frá Frakklandi. Hún segir lokavinnu við að setja saman dagskrána nú standa yfir og að hátíðin lofi góðu. „Það má segja að það verði fullt af spennandi myndum og viðburðum. Ég bið bara fólk vinsamlegast að setja sig í bíóstellingarnar,“ segir Hrönn glöð í bragði að lokum.
RIFF fer nú fram í þrettánda sinn og stendur yfir dagana 29. september til 9. október. Áhugasamir geta kynnt sér hátíðina betur á vefsíðu hátíðarinnar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.