„Við vorum með ákveðin tímabil undir hjá báðum listamönnunum,“ segir Aldís. „Erum að skoða árin frá 1968 til 1978 hjá Karli og síðustu tíu ár hjá Erlu.“
Verk Karls eru víða til, bæði á söfnum og á heimilum að sögn Aldísar. „En við þurftum að hafa dálítið fyrir því að finna þau. Vorum líka að reyna að finna verk sem ekki hafa verið sýnd á síðustu árum, sum jafnvel ekki síðan 1968.“

Þær segja Karl hafa notað gvass mikið á þessu tíu ára tímabili en gvass er vatnsleysanlegur litur, mun þykkari en vatnslitir og meira þekjandi. „Karl tileinkaði sér gvassið sem miðil í tuttugu ár og verkin á sýningunni eru mikilvæg í hans ferli og leiða hann inn í stóru olíumálverkin sem hann fór svo að mála í kringum 1974,“ lýsir Aðalheiður. Aldís tekur við. „Þá var hann með viðamikla sýningu í Norræna húsinu, þannig að við erum bæði með gvassverkin sem einkenndu stíl hans frá 1968 og líka hans stóru olíumálverk frá 1974 til 6.“

„Já, þau dökkna og breytast í birtunni,“ bætir Aðalbjörg við. Skyldi það þýða að fólk verði að fara daglega á sýninguna til að fylgjast með þróuninni? „Ekki segi ég það nú. Ferlið er hægara en svo,“ segir hún brosandi. „En sýningin mun standa til 13. nóvember og á milli opnunar hennar og miðbiks verður örugglega dálítill munur. Erla er líka sjálf spennt fyrir því að sjá hvað gerist.“
Aldís tekur við. „Svo erum við líka með eldri verk eftir Erlu, bæði málverk og skúlptúra. Hún er mjög mikilvirk í sinni list og á yfir 30 ára feril.“
„Já, það má segja að blaðsilfrið sé svolítið einkennandi fyrir hana. Hún er ekkert með það í öllum verkum en nýju verkin hennar eru þannig,“ segir Aðalheiður og lýsir ferlinu nánar. „Hún málar á strigann og er oft djörf í litavali, leggur síðan örþunnar silfurþynnurnar yfir og með tímanum oxast þær. Svo lakkar hún yfir og stoppar ferlið. Ræður því auðvitað hvenær það gerist. Þá rifar í undirliggjandi teikningu, liti og strúktúr.“
Sýningin Tímalög er á dagskrá Blómstrandi daga í Hveragerði og af því tilefni leikur Jazztríó Páls Sveinssonar nokkur lög við opnunina.
Sunnudaginn 14. ágúst verða líka útgáfutónleikar í safninu þegar Artic strengjasveitin leikur af nýútgefnum hljómdiski íslensk þjóðlög og vinsæl sönglög. Kvartettinn skipa fiðluleikarinn Ágústa M. Jónsdóttir, víóluleikarinn Kathryn Harrison, sellóleikarinn Ólöf S. Óskarsdóttir og fiðluleikarinn Martin Frewer, sem hefur útsett öll lögin. Hljóðfæraleikararnir eiga allir sæti í Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Sýningin Tímalög mun standa til og með 13. nóvember og í ágúst og september er safnið opið alla daga milli klukkan 12 og 18.
Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýningarinnar og útgáfutónleikana.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. ágúst.