Enski boltinn

Salan á Pogba strandar á 2,7 milljarða króna greiðslu til umbans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mino Raiola vill sinn skerf og rúmlega það.
Mino Raiola vill sinn skerf og rúmlega það. vísir/getty
Samkvæmt Sky Sports á Ítalíu er ástæða þess að Paul Pogba er ekki nú þegar orðinn leikmaður Manchester United sú að hvorki enska félagið né Ítalíumeistararnir eru tilbúnir að greiða umboðslaun Mino Raiola.

Ítalinn Mino Raiola er umboðsmaður Pauls Pogba, Zlatan og fleiri stórlaxa í boltanum, en hann er að heimta 20 milljóna evra greiðslu fyrir að ganga frá sölunni eða 2,7 milljarða íslenskra króna.

Pogba er kominn langt í viðræðum við José Mourinho og Manchester United um endurkomu á Old Trafford, fjórum árum eftir að hann yfirgaf England og hélt til Juventus þar sem hann hefur orðið Ítalíumeistari fjögur ár í röð.

Fréttakonan Valentina Fass úskýrði málið í beinni útsendingu á Sky Sports á Englandi í morgun þar sem hún fullyrðir að viðræður United við Pogba eru mjög langt komnar.

„United er búið að semja við leikmanninn. Hann fær þrettán milljónir evra eftir skatta á ári og sjö milljónir fyrir ímyndarréttinn. Vandamálið er þessi umboðslaun,“ sagði hún.

„Raiola fór til Miami til að ræða málin við Pogba en umboðslaun hans eru mjög á, eitthvað í kringum 20 milljónir evra. Það sem á eftir að ákveða er hver borgar þessi umboðslaun en Juventus er ekki tilbúið að gera það.“

„Manchester United virðist ekki heldur tilbúið til þess eins og staðan er þar sem félagið er nú þegar að borga 110 milljónir evra fyrir leikmanninn,“ sagði Valentina Fass.


Tengdar fréttir

NBA-leikmaður skilur ekkert í Paul Pogba

Paul Pogba verður fljótlega kynntur sem nýr leikmaður Manchester United en enska félagið mun þá gera hann að dýrasta leikmanni heims samkvæmt erlendum fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×