Arna Stefanía Guðmundsdóttir keppti einnig í undanúrslitum í 400 metra grindahlaupi á laugardaginn. Arna Stefanía hljóp á 57,24 sekúndum og endaði í 18. sæti í undanúrslitum á sínu fyrsta stórmóti fullorðinna.
Ekki nóg með það, þá setti Hafdís Sigurðardóttir nýtt Íslandsmet í langstökki á móti rétt fyrir utan Amsterdam á laugardaginn. Hafdís stökk 6,62 metra og var aðeins 0,08 metrum frá Ólympíulágmarkinu. Laugardagurinn var því sannarlega frábær hjá íslenskum frjálsíþróttakonum.

Ásdís byrjaði af miklum krafti í úrslitakeppninni í spjótkastinu og kastaði spjótinu 60,37 metra í fyrstu tilraun. Þetta er næstlengsta kast Ásdísar á stórmóti en Íslandsmet hennar frá Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum er 62,77 metrar.
„Ég er ofboðslega sátt við þetta,“ sagði Ásdís þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hennar í gær.
„Ég kem inn í þetta mót með nítjánda besta árangurinn í Evrópu í ár og af keppendunum á EM er ég einhvers staðar í kringum 16.-18. sæti. Ég enda í 8. sæti þannig ég held að ég geti verið ansi sátt.“
Ásdís endaði sem áður sagði í 8. sæti sem er hennar besti árangur á stórmóti. Tatsiana Khaladovich frá Hvíta-Rússlandi hrósaði sigri í spjótkastskeppninni en hún grýtti spjótinu lengst 66,34 metra.
„Það var rosalega erfitt að kasta en það var hrikalega mikill vindur inni á vellinum. Að ná tveimur 60 metra köstum í svona aðstæðum er alveg frábært,“ sagði Ásdís.
„Ég vildi annað hvort kasta yfir 60 metra eða enda í einu af átta efstu sætunum. Ég gerði bæði þannig að ég er mjög sátt.“
Aðeins mánuður er þangað til Ólympíuleikarnir í Ríó verða settir. Ásdís er þar á meðal keppenda en hún náði Ólympíulágmarkinu þegar hún kastaði 62,14 metra á móti í Ríga í Lettlandi í lok maí í fyrra.
„Ólympíuleikarnir eru aðal atriðið og það sem við erum að æfa fyrir. Þetta [EM] var bara generalprufa,“ sagði Ásdís sem keppir á tveimur mótum áður en hún fer til Brasilíu.
„Ég keppi annað hvort á Demantamótinu í Mónakó á föstudaginn eða svissneska meistaramótinu um næstu helgi. Það er ekki enn komið í ljós hvort ég komist inn en ég held enn í vonina. Helgina þar á eftir keppi ég svo á Íslandsmeistaramótinu. Ég flýg svo til Brasilíu í byrjun ágúst, verð á opnunarhátíðinni og fer svo í æfingabúðir og kem ekki aftur í Ólympíuþorpið fyrr en tveimur dögum fyrir keppni.“
Ásdís er á leið á sína þriðju Ólympíuleika en hún endaði í 11. sæti í London 2012. En hvaða markmið hefur Ásdís sett sér fyrir leikana í Ríó?
„Ég er með mín markmið sem ég ætla að halda fyrir mig þangað til eftir keppnina allavega. Ég ætla bara að gera eins vel og ég get,“ svaraði Ásdís.