Davíð Oddsson er langtekjuhæstur forsetaframbjóðendana níu með rúmar 3,6 milljónir á mánuði. Sturla Jónsson rekur lestina með um 19 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Athygli vekur að það tæki Sturlu um 16 ár að vinna fyrir mánaðarlaunum Davíðs.
Þetta kemur fram á vef tímaritsins Frjálsrar verslunar en Frjáls verslun gefur í dag út sitt árlega tekjublað og er blaðið í sölu í 13 daga. Þar eru birtar tekjur um þrjú þúsund einstaklinga víðs vegar af landinu. Þekkts fólks í þjóðlífinu, menn í atvinnulífi, listum og stjórnmálum.
Guðni Th. Jóhannesson, verðandi forseti, var með 657 þúsund á mánuði í tekjur en hann hann mun margfalda laun sín er hann tekur við embætti. Samkvæmt nýlegum úrskurði Kjararáðs eru laun forseta nú tæpar 2,5 milljónir á mánuði.
Tekjur Höllu Tómasdóttur námu 458 þúsund á mánuði, tekjur Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur námu 412 þúsund krónum á mánuði og Andri Snær Magnason, rithöfundur, var með 351 þúsund í tekjur á mánuði.
Hildur Þórðardóttir var 190 þúsund í tekjur á mánuði en Elísabet Jökulsdóttir með um 179 þúsund. Restina lekur, líkt og áður sagði, Sturla Jónsson, með 19 þúsund krónur á mánuði í tekjur.
Lögheimili Ástþórs Magnússonar er erlendis og koma því tekjur hans ekki fyrir á listanum.
Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2015 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.
