„Við ákváðum í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið að grípa til viðamikilla aðgerða við endurskipulagningu og hagræðingu í starfsemi stofnunarinnar. Aðgerðir þessar tóku til fjölmargra þátta og sviða innan stofnunar og höfðu í för með sér fækkun um 18 starfsmenn í samtals 13,1 stöðugildi. Stór hluti endurskipulagningarinnar er unnin með því að leggja niður tímabundna samninga. Af þessum 18 starfsmönnum má telja að 5 einstaklingar hafi misst starf hjá HSU en 2 af þeim þremur áttu árs biðlauna. Aðrir starfmenn sem aðgerðirnar snertu fengu ekki endurnýjun samninga eða voru boðin laus störf innan stofnunarinnar. En vissulega er erfitt þegar slíkar breytingar snerta einstaklinga sem eru starfmenn okkar, en við höfum reynt að milda aðgerðirnar eftir okkar fremsta megni“, segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
Skrifstofufólki og stjórnendum sagt upp
Herdís segir að uppsagnirnar sem grípa þurfti til muni ekki hafa áhrif á klíníska starfsemi HSU, þar sem fyrst og fremst er um er að ræða niðurskurð á skrifstofustörfum og stjórnendastörfum en ekki störfum sem snúa beint að sjúklingum. Endurskipulag átti sér stað á mönnun hjúkrunardeilda á Selfossi þar sem tvær 20 rúma deildir voru sameinaðar í eina hjúkrunardeild sem skapar aukið svigrúm til samvinnu.

Þingmenn upplýstir
Herdís leggur áherslu á að hagræðingin og endurskipulagning á starfsemi var unnin í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, og reynt hafi verið að milda niðurskurðinn af fremsta megni.
„Við höfum fengið skilning á okkar málum hjá ráðuneytinu, sem hefur unnið mjög vel með okkur. Málefni stofnunarinnar eru í vinnslu þar. Við sem stjórnendur stofnunarinnar höfum þó látið staðar numið núna, og í framhaldinu verði skoðað hvernig breytingarnar sem hafa verið gerðar muni hafa áhrif á heildarstarfsemina. Þess ber líka að geta að við erum með um 430 starfsmenn svo þetta er ekki stór hluti starfsmanna þó þetta sé vissulega erfitt fyrir þá sem verða fyrir því. Við munum endurskoða árangur þessara aðgerða strax nú síðsumars og leggja svo fram tillögur um framhaldið“, segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þá má geta þess að þingmenn Suðurkjördæmis og sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hafa verið upplýstir um ástandið á stofnuninni.