Þeir Conor McGregor og Nate Diaz byrjuðu að hita upp fyrir bardaga sinn þann 20. ágúst er þeir hittust í Las Vegas í gær.
Það var fyrsti blaðamannafundurinn til þess að auglýsa UFC 202 þar sem bardagi þeirra verður aðalnúmerið.
Þetta er annar bardagi þeirra en Diaz vann fyrri bardagann í annarri lotu. Conor ætlar að rétta hlut sinn í næsta mánuði.
„Hvernig bardagamaður væri ég ef ég tapaði gegn manni í ákveðnum þyngdarflokki og bæði hann svo um að koma í annan þyngdarflokk næst? Það er því eðlilegt að þessi bardagi fari fram í sama þyngdarflokki svo það verði enginn vafi um það hvor okkar sé betri,“ sagði Conor en hann fór upp um þyngdarflokka til að mæta Diaz í veltivigt.
„Ég verð betur undirbúinn fyrir hann núna. Ég vanmat seigluna og reynsluna í honum síðast. Ég geri þau mistök ekki aftur.“
Sjá má það helsta af blaðamannafundinum hér að ofan.
