„Ég veit að Englendingar eru með frábært lið og munu spila sinn besta leik en miðað við hvernig íslenska liðið hefur spilað í undankeppninni og í lokakeppnini hafa þeir sýnt hvað í þeirra brjóstum býr og ég veit ég það að íslensku hjörtun fara langt með þetta,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar.
Guðbjartur segir að siglingin verði sárabót fyrir sært stolt Englendinga eftir tapið en þeir geti hvort sem er ekki snúið aftur heim strax eftir leik enda yrðu fjölmargir aðdáendur Englands illa svekktir út í þá.

Bætir hann því við að það sé aðeins kurteisi og auðmýkt að bjóða enska liðinu heim til Íslands eftir háðulegt tap. Miðarnir sjálfir eru dagsettir þann 28. júlí næstkomandi og vonar Guðbjartur að leikmennirnir taki boðinu en þjálfaranum, Roy Hodgson og starfsliðinu, þar sem finna má meðal annars Gary Neville, sé einnig boðið.
„Við bjóðum þeim friðsælan dag í hvalaskoðun í Húsavík þar sem finna má fallega náttúru og indælt fólk. Það ætti að vera hinn fullkomna blanda til þess að jafna sig á tapinu,“ segir Guðbjartur.
Hvort að Englendingar þyggi boðið skal ósagt látið en einn stærsti fjölmiðill Bretlands, The Guardian hefur fjallað um boð Norðursiglingar til ensku leikmannanna.
Liðin mætast í Nice á mánudaginn. Gríðarleg eftirvænting er eftir leiknum en um þrjú þúsund Íslendingar verða á leiknum í Nice.