Óskar Guðmundsson hlaut í dag Blóðdropann fyrir sína fyrstu skáldsögu, Hilmu. Blóðdropinn er veittur þeim höfundi sem ritaði bestu íslensku glæpasöguna á árinu sem leið en hann var fyrst veittur árið 2007. Verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.
Í umsögn dómnefndar um Hilmu segir að persónur sögunnar séu fjölbreytilegar og lesandanum finnist jafnvel sem hann hafi mætt þeim á götum Reykjavíkur. „Spenna sögunnar felst að miklu leyti í sjónarhorni frásagnarinnar. Lesandinn fylgist með hugsunum og gjörðum morðingjans sem oft er nálægt því að verða gripinn af Hilmu og rannsóknarteymi hennar. Höfundur dregur lesandann inn í umhverfi sögunnar á skýran og greinargóðan hátt.“
Í dómnefnd að þessu sinni sátu Úlfar Snær Arnarsson, Kristján Jóhann Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir.
Óskar Guðmundsson hlaut Blóðdropann
