Eftirvæntingin var gríðarleg eftir fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á Íslandi og voru æstir aðdáendur farnir að mynda röð snemma dags til þess að komast inn í Laugardalshöllina. Radiohead steig á svið klukkan 21.30 og voru margir búnir að bíða í röð klukkutímum saman.
Óhætt er að segja að biðin hafi verið þess virði en Radiohead fór með tónleikagesti í tónlistarlegt ferðalag um feril sinn sem nær aftur til níunda áratugs síðustu aldar.
Frá því að platan OK Computer kom út árið 1997 hefur Radiohead verið efst á baugi tónlistarheimsins og því stórbrotið að fá þessa hljómsveit, sem sögð hefur verið hinir einu sönnu arftakar Bítlanna, til Íslands.
Tónleikarnir með Radiohead voru geðveikir. Óskiljanlegt hvernig hægt er að eiga svona mörg góð lög gefin út á meira en 20 ára tímabili.
— Atli Fannar (@atlifannar) June 18, 2016
Tónlistin verður ekki mikið fallegri en í laginu Weird Fishes/Arpeggi sem gaf tóninn eftir að Radiohead hafði rúllað í gegnum fimm lög af nýjustu pötu sinni, A Moon Shaped Pool í upphafi tónleikanna.
Klassískir slagarar á borð við No Surprises, Reckoner og My Iron Lung fengu að hljóma áður farið var í gegnum hina heilögu Kid A þrenningu sem hófst á National Anthem og lauk með Idioteque fyrir fyrsta uppklapp.
The crowd was enjoying #Radiohead tonight https://t.co/bHjI2LzGiz
— Laufey (@laufeygunn) June 18, 2016
Við það trylltist allt og var sérstaklega vel tekið í það þegar Thom Yorke tók lengri útgáfu af Karma Police með áhorfendaskaranum sem tók gríðarlega vel undir. Þakið ætlaði svo bókstaflega að rifna af höllinni þegar talið var í Creep en afar sjaldgæft er að lagið fái að hljóma á tónleikum Radiohead á seinni árum.
Hljómsveitin hefur, líkt og áður sagði, verið starfandi í hartnær þrjátíu ár. Hljómsveitir sem starfa svo lengi deyja oft hægum dauðdaga en tónleikarnir í gær voru merki um það að Radiohead er á ákveðnum hátindi, engin hljómsveit af samsvarandi stærð og frægð er að gera það sem þeir eru að gera. Það jafnast fáar sveitir í tónlistarsögunni á við Radiohead og það sást bersýnilega á tónleikunum í gær.
Einnig: Thom Yorke er something else. Hann kom eiginlega á óvart í kvöld, ef það var þá hægt. Algjört séní.
— Kristján Atli (@kristjanatli) June 18, 2016