MAST vinnur nú að því að kortleggja stöðu hestatengdrar ferðamennsku og hefur haldið fundi með félagi hrossabænda og völdum ferðaþjónustuaðilum í geiranum til að ná utan um starfsemina hér á landi.

„Bæði er það í verkahring Matvælastofnunar samkvæmt nýjum lögum að sinna eftirliti með velferð hrossanna í þessum hestaleigum. Einnig erum við að brýna fyrir hestaleigum þörfina á því að kynna viðskiptavinum þeirra reglur um smitvarnir við bókanir ferða og ganga úr skugga um að ferðamenn fylgi þeim reglum við komuna til landsins,“ segir Sigríður.
„Nú erum við að biðla til hestaleiga að skrá sig á vef stofnunarinnar svo hægt sé að halda utan um fjöldann. Þó við vitum ekki nákvæmlega hversu margar hestaleigurnar eru í landinu erum við þó með nokkuð góða mynd af stöðunni.“

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri Íshesta, segir fyrirtækið skrá ítarlega notkun á hverju hrossi til að tryggja velferð þeirra.
„Við erum með um 120 hross og verðum að hafa yfirsýn yfir notkun og hreyfingu okkar hesta. Bæði hvað varðar að nýta hross sem og að ofbrúka þau ekki. Þannig skráum við hreyfingu hvers hross sem MAST getur svo skoðað og farið yfir,“ segir Skarphéðinn Berg.