Þetta kemur fram í gögnum sem Sigmundur Davíð hefur birt á heimasíðu sinni þar sem segir að KPMG endurskoðunarfyrirtækið hafi yfirfarið skattamál þeirra hjóna tíu ár aftur í timann og komist að þeirri niðurstöðu að eignir aflandsfélags Sigurlaugar hafi aldrei verið í skattaskjóli.
Anna Sigurlaug hafi ætíð greitt fullan skatt af eignum sínum og tekjum í samræmi við íslensk lög. Þetta segir í Morgunblaðinu sem fyrst greindi frá og birti greinargerð Sigmundar Davíðs.
Bjóst aldrei við að þurfa að birta slíkar upplýsingar
Í tengslum við birtinguna segir Sigmundur Davíð að upplýsingarnar séu þær ítarlegustu sem íslenskur stjórnmálamaður hafi veitt opinberlega um eigin fjármál til þessa.

„Mér telst til að þær upplýsingar sem hér fylgja séu þær ítarlegustu sem nokkur íslenskur stjórnmálamaður hefur veitt um eigin fjármál eða fjölskyldu sinnar. Ég hvet aðra kjörna fulltrúa til að gera slíkt hið sama, einkum þá sem hafa haft frumkvæði að því að gera fjármál annarra að pólitísku bitbeini hvort sem þeir ætla að bjóða sig áfram fram til opinberra starfa eða ekki. Ég ítreka að eftirfarandi upplýsingar eru að sjálfsögðu birtar með leyfi Önnu, eiginkonu minnar.“
Segir að ekki hafi þurft að birta CFC-framtöl
Sigmundur Davíð segir í færslu sinni að með Wintris inc. hafi verið um að ræða verðbréfaeign, í vörslu og fjarstýringu banka, og tekjur af verðbréfum. Því hafi ekki þurft að skila CFC-framtölum en þau eru ætluð vegna eignarhalds á atvinnustarfsemi í lágskattaríkjum.
Þó er einnig birt framtal sem sýnir hverjar skattgreiðslur hefðu orðið ef Wintris inc. hefði verið talið til atvinnustarfsemi.
Á gögnunum sést jafnframt að greiddur var auðlegðarskattur af eignunum.
Sigmundur Davíð tjáði sig á Facebook í morgun í kjölfar þess að upplýsingarnar voru birtar á vefsíðu hans.