Gunnar Nelson hoppar upp um eitt sæti á milli vikna á styrkleikalista UFC í veltivigt en hann er nú í tólfta sæti.
Gunnar hoppar upp fyrir Kevin Gastelum sem hefur ekki barist síðan í nóvember á síðasta ári en hann mun næst berjast við Johny Hendricks á UFC 200 í Las Vegas.
Okkar maður bar sigur úr býtum gegn Rússanum Albert Tumenov fyrir rúmri viku síðan og komst með honum aftur inn á styrkleikalista UFC eftir stutta fjarveru.
Sjá einnig: Gunnar Nelson aftur á meðal fimmtán bestu en sparkaði Tumenov út af listanum
Gunnar hefur hæst komist í ellefta sæti listans en enn er óljóst hverjum hann mætir næst og hvenær.
Fjölmiðlamenn víða um heim hafa atkvæðisrétt þegar kemur að því að raða á styrkleikalista UFC en þar er fimmtán sterkustu áskorendum raðað niður í sæti á eftir ríkjandi meistara í hverjum þyngdarflokki.
Jon Jones er efstur í heildarflokkinum, pund fyrir pund, og Írinn Conor McGregor er þar í sjöunda sæti. Fabricio Werdum féll niður um ellefu sæti á þeim lista eftir að hafa tapað fyrir Stipe Miocic á UFC 198 um helgina og misst þar með titil sinn í þungavigtarflokki.
