Nú er Elín að leggja lokahönd á bókina Onyfir með nýjum teikingum að austan og er að safna fyrir útgáfu hennar á Karolinafund. Titillinn vísar í málnotkun Borgfirðinga sem segja gjarnan onyfir (ofan yfir) þegar þeir ætla af Héraðinu aftur til sinna heimkynna. Bókin er lokaverkefni hennar frá teiknideild Myndlistarskólans í Reykjavík.
„Ég fór austur í mars og er nýkomin til baka. Mér finnst langskemmtilegast að teikna á staðnum ef veðrið leyfir,“ segir hún og lýsir tempóinu í þorpinu.
„Þó ég hafi stundum verið þar að vinna í fiski allan daginn finnst mér samt eins og ég sé í fríi, það er svo mikil ró yfir öllu. Þetta langaði mig að fanga með teikningunum - þennan sérstaka hversdagsleika á Borgarfirði eystra.“
