Eins og Vísir greindi frá í gær er UFC-stjarnan mætt hingað til lands til æfinga. Conor á fjölmarga íslenska kunningja og er þeim Gunnari Nelson vel til vina
„Conor var úti að borða með crew-inu sínu,“ segir Tómas þegar hann er beðinn um að rifja upp gærkvöldið. Tómas er mikill aðdáandi Conors og fylgdist með honum úr fjarlægð þegar Conor yfirgaf Vegamót ásamt félögum sínum.
Tómas segir þá hafa yfirgefið Vegamót og skellt sér beint á reiðhjól.
„Þeir voru bara hjólandi um allan bæinn,“ segir Tómas. Þetta var um tíuleytið í gærkvöldi og komu tveir ungir strákar til Conor og báðu um mynd sem Conor leyfði góðfúslega.
Algjör meistari
„Ég þorði varla að tala við hann, hann var svo nettur,“ segir Tómas. En það var ekki bara Tómas sem tók eftir Conor. Conor varð var við Tómas.
„Hann sá að ég var að horfa á hann, kom hjólandi til mín og byrjaði að hringsóla í kringum mig,“ segir Tómas sem klæddist peysu með textanum „I feel like Pablo.“ Um er að ræða vísun í plötu Kanye West, The Life of Pablo. Conor greip boltann á lofti:
„What’s up Pablo,“ sagði Conor og braut ísinn. Í kjölfarið fékk Tómas mynd af sér með Conor og ber honum vel söguna.
„Hann var mjög næs og algjör ‘gentleman’,“ segir Tómas. Gunnar Nelson hafi ekki verið á svæðinu en hann taldi hina í hópnum hafa verið þjálfara hans og íslenska þjálfara hjá Mjölni.
„Hann er algjör meistari,“ segir Tómas.