Gunnar tapaði síðasta bardaga fyrir Demian Maia í Las Vegas en hann er nú búinn að tapa tveimur af síðustu þremur bardögum sínum og verður að ganga frá Tumenov í Rotterdam eftir rúman mánuð.
„Albert verður erfiður andstæðingur. Hann er góður boxari og ákafur bardagamaður sem er góður með höndunum. Ég hlakka til að mæta honum og halda áfram að þróast sem bardagamaður,“ segir Gunnar í viðtali við Sport360.

Síðustu tveir bardagar Gunnars fóru fram í Las Vegas og fór stærstur hluti undirbúningsins fyrir þá báða fram í Ameríku. Nú er Gunnar hér heima með góða gesti til að hjálpa sér við undirbúninginn.
„Æfingar hafa gengið mjög vel. Við höfum fengið að undirbúa okkur á Íslandi til tilbreytingar sem er mjög gaman. Stundum æfum við tvisvar á dag,“ segir Gunnar.
„Ég er líka alltaf að æfa sjálfur. Ég reyni alltaf að vera tilbúinn. Þetta er áframhaldandi verkefni hjá mér og ég er alltaf að reyna að læra nýja hluti. Ég undirbý mig aldrei fyrir einhvern ákveðinn bardaga. Ég treysti bara á minn leik og held mér í formi.“
Kavanagh fann Gunnar á gólfglímumóti í Mjölni þegar hann var 19 ára og hefur Íslendingurinn æft mikið undir handleiðslu Írans allar götur síðan.
„Hann hefur haft mikil áhrif á mig,“ segir Gunnar um Kavanagh. „John var fyrsti MMA-þjálfarinn minn. Hann hefur mjög næmt auga fyrir íþróttinni.“
„Samband okkar er mjög gott og hann er frábært að sjá hluti sem henta mínum leik og það sem ég þarf að bæta. Hann er þjálfarinn minn og verður það um ókomna tíð,“ segir Gunnar Nelson.