Nú er ljóst að ekkert verður af því að Daniel Cormier og Jon Jones mætist á nýjan leik í UFC 197 eins og til stóð. Ástæðan er sú að Cormier er meiddur en bardaginn átti að fara fram laugardaginn 23. apríl.
Bardagi Jones og Cormier átti að vera aðalbardagi kvöldsins en á þessari stundi er óljóst hvort að Jones muni berjast þetta kvöld og eins er óljóst hvenær Cormier verðir klár í slaginn á nýjan leik.
Síðasti bardagi Jones var í janúar 2015 en hann var handtekinn fyrr í vikunni fyrir brot á skilorði er hann nældi sér í fimm sektir vegna umferðalagabrota á einni viku. Jones var sleppt úr fangelsi á fimmtudaginn og fljótlega í kjölfarið var tilkynnt að hann myndi berjast við Cormier síðar í mánuðinum. Nú er hins vegar ljóst að ekkert verður úr því.

