Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem í gær steig til hliðar sem forsætisráðherra, mun ekki ávarpa ársfund atvinnulífsins sem haldinn verður í Hörpu á morgun.
Fundurinn er á vegum Samtaka atvinnulífsins (SA) og ber yfirskriftina Fíllinn í herberginu og leitin að peningastefnunni.
Til stóð að Sigmundur ávarpaði fundinn ásamt þeim Björgólfi Jóhannssyni, formanni SA, og Má Guðmundssyni seðlabankastjóra.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, staðfesti í samtali við fréttastofu rétt í þessu að Sigmundur Davíð mun ekki taka til máls líkt og auglýst var.
