Þeir börðust í veltivigt í byrjun mars þegar þurfti að aflýsa bardaga Conors og Brasilíumannsins Rafaels dos Anjos um heimsmeistaratitilinn í léttvigt vegna meiðsla Dos Anjos.
Að fara upp um tvo þyngdarflokka reyndist Conor um megn því eftir fína byrjun barði Nate Diaz Írann sundur og saman og gekk svo frá honum með hengingartaki í annarri lotu.
Sama kvöld munu Jose Aldo og Frankie Edgar berjast um bráðabirgða heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt og sigurvegarinn í þeim bardaga mætir svo Conor.
„Eftir síðasta bardaga heimsótti ég og Lorenzo Fertitta [Einn eiganda UFC] Conor hann í húsinu sem hann leigir hér í Vegas og spurðum: Hvað er næst?“ sagði Dana White, forseti UFC, í viðtali við ESPN í gærkvöldi.
„Conor var heltekinn og þá meina ég heltekinn að berjast við Nate Diaz aftur. Við Lorenzo reyndum þá að rökræða við hann og fá Conor til að verja beltið sitt í fjaðurvigtinni eða, ef hann vildi endilega berjast við Diaz aftur, þá gera það í léttvigt.“
„En Conor vill berjast í veltivigt. Meira að segja þjálfari hans, Kavanagh, reyndi að tala hann af þessum 170 punda bardaga en þetta er það sem Conor vill og þá fær hann það,“ sagði Dana White.